Færri Norðmenn vilja í ESB

Fylgjendum ESB-aðildar fækkar í Noregi samkvæmt nýrri könnun. Myndin er …
Fylgjendum ESB-aðildar fækkar í Noregi samkvæmt nýrri könnun. Myndin er frá Osló. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Einungis þriðjungur Norðmanna vill að landið gangi í Evrópusambandið (ESB), samkvæmt nýbirtri könnun Nationen. Stuðningur við norsku Evrópuhreyfinguna, sem vill að landið gangi í ESB, var um tíma í kringum 40% en er nú orðinn sá sami og fyrir ári síðan eða 33%. 

Paal Frisvold tók við formennsku í norsku Evrópuhreyfingunni í júní í fyrra. Eftir það jókst fylgi við hreyfinguna. Niðurstaða skoðanakönnunarinnar nú sýnir minnsta fylgi við aðild Noregs að ESB í eitt ár. 

Heming Olaussen,  formaður hreyfingarinnar Nei til EU sem er andvíg ESB aðild, fagnar niðurstöðunum. Hann er viss um að í næsta mánuði geti hann haldið upp á samfellt fimm ára skeið þegar meirihluti þjóðarinnar hefur verið andvígur ESB aðild. 

Hann er viss um hvað veldur því að 53,4% norsku þjóðarinnar eru andvíg aðild. Hann segir að fólk fylgist með þróun mála í ESB. Ringulreið sé nú í kringum evruna og svo virðist sem skýra forystu vanti í sambandinu. 

Olaussen telur að aðild að ESB myndi fylgja aukið atvinnuleysi, niðurskurður eftirlauna og launa, minnkun réttinda og inngrip í sjálfstæði Noregs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert