Obama kynnir nýja áætlun í heilbrigðismálum

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, svipti í dag hulunni af nýju frumvarpi sínu til endurbóta á heilbrigðiskerfinu þar í landi.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á endurskipulagningu heilbrigðiskerfisins og að koma í gegn löggjöf sem enn bíður samþykktar. Einn af lykilþáttum frumvarpsins er að þar er stjórnvöldum veitt heimild til að grípa í taumana og koma í veg fyrir óraunhæfar hækkanir á iðgjöldum sjúkratrygginga.

Í tilkynningu frá Hvíta húsinu var sagt að með frumvarpinu gæti 31 milljón manna sem í dag hefði ekki efni á heilbrigðisþjónustu, notið hennar. En stutt er síðan eitt af stóru sjúkratryggingafyrirtækjunum tilkynnti um nær 40% hækkun á iðgjöldum frá 1. mars næstkomandi. Með frumvarpinu væri flestum Bandaríkjamönnum gert kleift að kaupa sjúkratryggingu með niðurgreiðslu frá ríkinu. Þá er sjúkratryggingafyrirtækjum gert óheimilt að hafna því að tryggja fólk sem er með langvinna sjúkdóma eða krefja það um hærri iðgjöld.

Obama sagði endurbætur á heilbrigðiskerfinu nauðsynlegar til að ná böndum yfir kostnað, með að draga úr umframeyðslu stjórnvalda og ná stjórn á misnotkun og svikum innan kerfisins.

Vill ná þverpólitískri sátt

Þetta er í fyrsta sinn sem Obama leggur sjálfur fram frumvarp í heilbrigðismálum. Hann stefnir á að ná þverpólitískum stuðningi við frumvarpið og mun funda með stjórnarandstöðunni á fimmtudag um efni þess. Obama sé tilbúinn til þess að taka við tillögum frá Repúblikönum og koma þeim að í frumvarpinu. Stjórnarandstaðan hefur hins vegar gagnrýnt það sem þar kemur fram og segir lítið nýtt frá fyrri frumvörpum Demókrata um efnið sem hafi þegar verið hafnað.

Obama mikið undir því að frumvarp um endurbætur á heilbrigðiskerfinu verði samþykkt en vinsældir hans hafa dalað jafnt og þétt síðan hann tók við embætti. Stjórnarandstaðan hefur notað heilbrigðismálin til að koma höggi á Obama með því að vísa til þess að hann vilji fara evópsku leiðina. Er á vef BBC sagt að slíkt valdi mörgum Bandaríkjamanninum áhyggjum sem geti ekki gert sér grein fyrir kostnaðinum sem því fylgi.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna KEVIN LAMARQUE
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert