Hætt er við að evran standist ekki til lengdar nema evruþjóðirnar breyti því hvernig þær takast á við skuldakreppur, að mati George Soros fjárfestis. Þetta kom fram í grein hans sem birtist í Financial Times í morgun.
Efnahagshrunið árið 2008 „fletti ofan af galla“ í uppbyggingu evrunnar, að sögn Soros sem skrifaði: „Ef aðildarlöndin [evrusvæðisins] geta ekki tekið næstu skref gæti evran hrunið.“
Soros sagði að grundvallarveikleiki sé í uppbyggingu evrunnar og færði þau rök að fullburða gjaldmiðill krefjist bæði seðlabanka og ríkissjóðs.
„Það þarf ekki að nota ríkissjóðinn til að skattleggja borgarana frá degi til dags en hann þarf að vera til staðar á krepputímum. Seðlabankinn getur tryggt greiðslugetu þegar hætta er á að fjármálakerfið hrynji en einungis ríkissjóður getur fengist við vandamál tengd greiðsluhæfni.
Þetta er vel þekkt staðreynd sem hefði átt að vera ljós öllum þeim sem tóku þátt í að búa evruna til,“ skrifar Soros m.a. í grein sinni.
Soros segir að aðstoð til bráðabirgða ætti að duga til að greiða úr skuldavanda Grikkja en ekki annarra aðildarlanda evrusvæðisins sem eru að sligast af miklum fjárlagahalla.
Fjárfestirinn sagði að Spánn, Ítalía, Portúgal og Írland séu „of stór hluti af evrulandi til að hægt sé að hjálpa þeim á þennan hátt.“ Þá sagði Soros að þótt tækist að greiða úr vandræðum Grikkja þá yrði samt spurningarmerki við framtíð evrunnar.
„Jafnvel þótt hún ráði við núverandi kreppu, hvað um þá næstu? Það er ljóst hvað vantar: Ágengara eftirlit og stofnanabundnar ráðstafanir til skilyrtrar aðstoðar.
Æskilegt væri að hafa vel skipulagðan markað með skuldabréf í evrum. Spurningin er hvort hægt er að skapa pólitískan vilja til að stíga þessi skref,“ skrifar Soros.