Kevin Rudd, forsætisráðherra Ástralíu, hefur greint frá nýrri gerð öryggiseftirlits með erlendum gestum til landsins og umsækjendum um vegabréfsáritanir. Þessar aðgerðir eru til þess að koma í veg fyrir hryðjuverk.
Helsta tæki Ástrala í baráttunni gegn hryðjuverkum felst í því að taka fingraför og kanna lífkenni ferðalanga. Þetta er þó aðeins hluti ráðstafana sem Kevin Rudd forsætisráðherra hefur ákveðið að taka upp.
Þessar aðgerðir munu beinast gegn ferðalöngum og umsækjendum um vegabréfsáritanir frá tíu löndum sem þykja einkar hættuleg í þessu tilliti.
„Í nýja kerfinu mun fólk sem sækir um nýjar rafrænar vegabréfsáritanir í þessum löndum vera beðið um að koma í eigin persónu þangað sem sótt er um vegabréfið til að leggja fram umsóknina og láta taka fingrafar og andlitsmyndir,“ sagði Kevin Rudd.
Aukið eftirlit kemur í kjölfar hertra ráðstafana á Vesturlöndum eftir misheppnaða tilraun Nígeríumanns til að sprengja upp flugvél á leið til Bandaríkjanna á jóladag. Um leið og ástralska ríkisstjórnin herðir eftirlit með þeim sem koma frá útlöndum sagði Rudd að einnig steðjaði að ógn innanlands.
„Sumar þær ógnanir sem við stöndum frammi fyrir koma frá fólki sem er fætt og menntað í Ástralíu og býr hér,“ sagði Kevin Rudd. Þannig hafa 35 einstaklingar verið sakaðir um eða standa frammi fyrir ásökunum um hryðjuverk í Ástralíu frá árinu 2001. Þar af hafa 20 verið sakfelldir fyrir slíkar sakir.