Færri afbrot eftir brennivínsbann

Kulusuk er í Tasilaq. Beint flug er þangað frá Íslandi.
Kulusuk er í Tasilaq. Beint flug er þangað frá Íslandi. Ómar Óskarsson

Tíðni afbrota í Austur-Grænlandi minnkaði um þriðjung og minna er um kærur vegna kynferðislegrar misnotkunar barna eftir að bannað var að selja sterkt áfengi á svæðinu. Vefurinn sermitsiaq.gl greinir frá þessu.

Kófdrukkið fólk slagar ekki lengur um götur á útborgunardögum en sú var raunin áður en grænlenska landsstjórnin bannaði sölu brennivíns í Austur-Grænlandi.  Naja-Vivi Mathiassen kennari segir að fólk hafi legið þar sem það datt og sofnað á götunni.

Fyrir bannið var ekki óalgengt að sjá 15-20 manns híma fyrir utan verslun bæjarins og drekka af stút þar til það stóð ekki í lappirnar. Nú er bannað að selja sterkara áfengi en 15%. Því er einungis hægt að kaupa léttvín og bjór. 

Brennivínsbannið hefur dregið úr tíðni afbrota og minnkað þungann af félagslegum vandamálum í Tasilaq héraði. Kristian Sinngertaat lögreglustjóri segir að glæpum hafi almennt fækkað, einnig lífshættulegum glæpum og nauðgunum. Hann telur að afbrotatíðnin hafi minnkað um þriðjung.

Tíðni afbrota í Tasilaq hefur verið yfir meðaltali Grænlands. Árið 2008 bjuggu um þrjú þúsund manns í héraðinu. Þá urðu þar þrjátíu nauðganir eða nauðgunartilraunir eða fleiri en í höfuðstaðnum Nuuk. Í 16 tilfellanna voru fórnarlömbin börn. 

Börn úr leikskólanum í Tasiilaq á Austur-Grænlandi.
Börn úr leikskólanum í Tasiilaq á Austur-Grænlandi. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert