Hollenski sportbílaframleiðandinn Spyker segir að kaupin á sænsku Saab bílaverksmiðjunum séu nú að fullu frágengin. Í yfirlýsingu Spyker segir að eigendaskiptin hafi farið fram kl. 15.30 í dag.
Saab Automobile og Spyker Cars verða starfrækt sem systurfyrirtæki, bæði í eigu eignarhaldsfélagsins Spyker Cars N.V. en það er skráð í kauphöllinni í Amsterdam.
„Við erum mjög ánægðir með að framtíð Saab er nú tryggð,“ sagði Victor Muller forstjóri Spyker í yfirlýsingu. Hann sagði að þeir myndu beita kröftum sínum í að blása nýju lífi í Saab og að breyta fyrirtækinu í sjálfbært og arðbært fyrirtæki.
Spyker og General Motors, sem átti Saab, sömdu í síðasta mánuði um sölu á Saab fyrir 74 milljónir bandaríkjadala í reiðufé og hlutabréfa að andvirði 326 milljónir dala.