Ný auglýsingaherferð samtaka sem berjast gegn reykingum hefur gert marga Frakka orðlausa undanfarna daga og íhugar ríkisstjórn Frakklands að leggja bann við birtingu auglýsinganna. Í þeim er nikótínfíkn líkt við kynferðislegt ofbeldi.
Í auglýsingunum sést karlmaður þrýsta andliti barns að kynfærum sínum. Önnur auglýsingin sýnir ungan pilt með sígarettu í munni en hin unga stúlku en börnin horfa óttaslegin á manninn í auglýsingunum. Texti fyrir neðan segir: Reykingar gera þig að þræl tóbaks.
Nadine Morano, ráðherra fjölskyldumála, segist ætla að grípa til aðgerða og fá auglýsingarnar bannaðar á grundvelli þess að þær brjóti gegn velsæmi.
„Það eru til aðrar leiðir til að skýra út fyrir ungu fólki að þú getur orðið háður sígarettum á sama tíma og við erum að berjast gegn barnaklámi," segir hún.