Pútín endurræsir vatnsorkuver

Vladimir Pútín
Vladimir Pútín Reuters

Vladimir Pútín, forsætisráðherra Rússlands, endurræsti fyrr í dag fyrstu túrbínuna í vatnsorkuveri við Sayano-Shushenskaya stífluna í Síberíu. Um er að ræða stærsta vatnsorkuver landsins. Ekki er nema hálft ár síðan 75 manns létu lífið í slysi í verinu.

Tildrög slyssins eru þau að fljóðbylgja flæddi inn í aðaltúrbínuna með þeim afleiðingum að starfsmenn sem þar voru inni drukknuðu. Allri framleiðslu í verinu var í framhaldinu hætt um tíma. RusHydro, eigandi versins, hyggst endurræsa á fjórar túrbínur síðar á þessu ári en markmiðið er að allar tíu túrbínur versins verði komnar í gang aftur fyrir árið 2014.

Að sögn Pútíns hefur rúmlega 10 milljörðum rúblna eða sem samsvarar um 43 milljörðum íslenskra króna verið varið í endurbætur og viðgerðir á verinu á þessu ári.

Byrjað var að reisa Sayano-Shushenskaya stífluna árið 1960 og þótti mannvirkið verkfræðiundur á tímum Sovétríkjanna. Í kjölfar slyssins gáfu tæknisérfræðingar út skýrslu þar sem þeir bentu á að ýmis tæknileg atriði sem og mannleg mistök hefðu valdið slysinu.

Slysið varð líka til þess að Dmitry Medvedev, Rússlandsforseti, sá til tilneyddan til þess að viðurkenna að Rússar væru ekki meðal þeirra bestu í heimi þegar kæmi að orkuvinnslu heldur stæðu öðrum þjóðum að baki í þeim efnum.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert