Atvinnuleysi í Þýskalandi heldur áfram að aukast og mældist 8.7% í síðasta mánuði en var 8,6% í janúar. Það þýðir að alls voru 3,643 milljónir manns án atvinnu í febrúar. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá þýsku vinnumálastofnuninni.
Þýskum stjórnvöldum hefur að mestu tekist að halda atvinnuleysi þar í landi í skefjum þó landið hafi á umliðnum mánuðum gengið í gegnum verstu fjárhagslægðina frá tímum síðari heimstyrjaldar. Meðal þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til eru niðurgreiðslur frá ríkinu sem gerir fólki kleift að minnka við sig vinnu án þess að taka á sig gríðarlega mikla launalækkun. Spár gera ráð fyrir að atvinnuleysi minnki á árinu 2010.