Faiza Ashraf, 26 ára gömul norsk kona af pakistönskum ættum, fannst myrt á ferðamannastað á Solli í Asker um kl. eitt síðastliðna nótt. Hún fannst drjúgan spöl inni í skógi um 100 metra frá fjölfarinni skíðagöngubraut.
Karlmaður, 25 ára gamall, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi frá því í fyrri viku hefur játað á sig morðið. Hann leiddi lögregluna á staðinn þar sem líkið fannst.
Faiza Ashraf var á leið til vinnu sinnar snemma að morgni 3. febrúar síðastliðinn þegar henni var rænt. Hún hringdi til lögreglunnar úr farsíma sínum og kvaðst vera lokuð inni í farangursgeymslu fólksbíls. Gat hún gefið lýsingu á árásarmanni sínum og nokkrum orðaskiptum við hann.
Gríðarlega mikil leit hefur staðið yfir að konunni og beindist grunurinn einkum að tveimur mönnum. Annar þeirra er sá sem nú hefur játað. Hann verður áfram í gæsluvarðhaldi. Lögreglan telur nú að Faiza hafi verið myrt sama dag og henni var rænt.