Líkt við blauta tusku

Herman Van Rompuy
Herman Van Rompuy Reuters

Nigel Farage, sem fer fyrir Sjálfstæðisflokki Breta á Evrópuþinginu, hefur látið hafa eftir sér að Herman Van Rompuy, fyrsti forseti Evrópusambandsins hafi jafn mikla persónutöfra og blaut tuska. Fjallað er um málið á vef breska ríkisútvarpsins. 

Farage líkti einnig Rompuy, sem er fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, við lágt settan bankastarfsmenn og tók fram að hann kæmi ekki frá raunverulegu ríki.

Árás Farage, sem kom flestum á Evrópuþinginu á óvart, kom í kjölfar þess að Rompuy hélt jómfrúarræðu sína á Evrópuþinginu í Brussel.

„Mig langar ekki til þess að vera dónalegur,“ sagði Farage þegar hann hóf ræðu sína áður en hóf síðan að úthúða forsetanum í löngu máli.  Þess má geta að Farage er þekktur fyrir hörð ummæli sín. Hann fer fyrir flokki sem berst fyrir því að Bretland dragi sig út úr Evrópusambandinu.

„Hver ertu eiginlega? Ég þekki engan í Evrópu sem nokkurn tímann hefur heyrt á þig minnst,“ þrumaði Farage á sama tíma og óánægjuskvaldur í þingsalnum jókst.
Farage viðurkenndi hins vegar að hann teldi Rompuy hæfan til að gegna starfi forseta, en tók fram að það gerði hann í sínum huga einnig hættulegan.

„Ég efast ekki um að ætlun þín sé að vera launmorðingi evrópsks lýðræðis og sjálfstæðis Evrópulanda,“ sagði Farage og bætti við: „Þú virðist fyrirlíta sjálfstæðar þjóðir. Kannski stafar það af því að þú kemur frá Belgíu sem er ekki alvöru ríki.“

Rompuy lét ummælin lítið á sig fá og vildi lítið sem ekkert gefa út á þau.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka