Pia Kjærsgaard, leiðtogi Danska þjóðarflokksins, hvetur nú dönsk dagblöð til þess að birta á ný hinar umdeildu teikningar af Múhameð spámanni í mótmælaskyni við þá ákvörðun forsvarsmanna danska dagblaðsins Politiken að biðjast afsökunar á endurbirtingunni árið 2008. Fjallað er um málið á vef danska dagblaðsins Politiken.
Samkomulag Politikens er gert við 94.923 eftirlifendur Múhameðs og í því kemur fram að blaðið biðji þá afsökunar sem birting teikninganna hafi móðgað og harmi það, en tekið er fram að forsvarsmenn blaðsins sjái ekki eftir því að hafa birt þær og tekur ekki fyrir að þær verði hugsanlega birtar aftur einhvern tímann í framtíðinni.
Þrátt fyrir að aðrir fjölmiðlar í Danmörku fordæmi samkomulagið sem Politiken hefur gert ætla hvorki forsvarsmenn Jyllands-Postens, sem lét gera teikningarnar tólf á sínum tíma og birti fyrst í september 2005, né Berlingske Tidendes að verða við ákalli Kjærsgaard og endurbirta teikningarnar.
Þannig segist Lisbeth Knudsen, ritstjóri Berlingske Tidende ekki hafa áhuga á að ögra meðan forsvarsmenn Jyllands-Postens segja að aðstæður hafi breyst síðan blaðinu barst sprengjuhótun fyrr í vetur.
„Öryggisaðstæður eru aðrar. Enginn getur lengur velkst í vafa um hvernig þessar teikningar líta út og við höfum ekki áhuga á því einu að ögra. Það höfum við aldrei viljað. Eina markmið okkar er að fram fari umræða meðal blaðamanna um tjáningarfrelsið og mörk þess,“ segir Jørn Mikkelsen, ritstjóri Jyllands-Postens, en leggur jafnharðan áherslu á að forsvarsmenn blaðsins séu með þessu ekki að gefa eftir rétt sinn til þess að endurprenta teikningarnar hvenær sem er.
Teikningarnar voru fyrst birtar síðla árs 2005 og vöktu þá mikla reiði Múhameðstrúarmanna. Sú teikning sem fór mest fyrir brjóstið á þeim var mynd þar sem spámaðurinn var með sprengju á höfðinu í stað túrbans. Birtingin leiddi til mótmæla í upphafi árs sem kostaði nokkra lífið.
Árið 2008 ákváðu stjórnendur tuttugu dagblaða í Danmörku, þeirra á meðal Politikens, að endurbirta teikningarnar sem viðbrögð við misheppnaðri árás á teiknarann Kurt Westergaard, sem er sá eini sem komið hefur fram undir nafni. Enginn fjölmiðill birti hins vegar teikningarnar þegar alvarlega morðtilraun var gerð gegn Westergaard í janúar sl. né heldur þegar í ljós kom að nokkrir menn höfðu skipulagt hryðjuverkaárás á Jyllands-Posten.
Fleiri danskir stjórnmálamenn hafa gagnrýnt ákvörðun stjórnenda Politikens og segja að menn láti kúga sig og fórni þar með tjáningarfrelsinu sem sé enn af grunnstoðum dansks samfélags.