Lést í fæðingu eftir rifrildi lækna

Reuters

Stúlkubarn lést í fæðingu í kjölfar rifrildis tveggja lækna á fæðingardeild í Brasilíu. Málið er nú til rannsóknar. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Öryggisverðir urðu að fjarlægja læknana vegna ágreining þeirra í millum um hvort þeirra ætti að vera ábyrgð á fæðingunni. Á meðan kom þriðji læknirinn og aðstoðaði konuna sem var í miðri fæðingu og varð fljótlega ljóst að hún þyrfti að fara í bráðakeisara. Hálfri annarri klukkustund kom lítil stúlka í heiminn en hún var þá andvana fædd. Á fæðingarvottorði kemur fram að dánarorsök sé súrefnisskortur, en eftir á að kryfja líkið og rannsaka nánar.

Að sögn embættismanna er að svo stöddu ekki hægt að fullyrða að rifrildi læknanna tveggja hafi haft þessi skelfilegu áhrif, en báðir læknar hafa hins vegar verið reknir úr störfum. Bæði lögreglan og heilbrigðisyfirvöld landsins eru nú með málið til rannsóknar.

Ólétta konan, Gislaine de Matos Rodrigues, segist hafa beðið lækninn sem borið hafi ábyrgð á heilsufari hennar í meðgöngueftirlitinu að vera sér til aðstoðar meðan á fæðingunni stæði. Stuttu eftir að konunni hafði verið gefið lyf sem framkalla átti fæðinguna birtist hins vegar annar læknir og heimtaði að hann ætti að hafa yfirumsjón með fæðingunni þar sem hann væri vakthafandi læknir. Rifrildi læknanna enda með handalögmálum og þurfi starfsfólk spítalans að kalla til öryggisverði sem fjarlægðu læknana.

"Þetta var mikill slagur. Á endanum veltust þeir um á gólfinu á meðan eiginkona mín öskraði á þá og bað þá um að hætta þessu," segir Gilberto Melo Cabreira, eiginmaður óléttu konunnar sem var á staðnum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert