Gríðarstór hafísbreiða, sem losnaði frá jökli á Suðurskautslandinu fyrr í mánuðinum, gæti raskað sjávarstraumum og breytt veðurfari víða um heim þegar fram líða stundir. Hugsanlegt er meðal annars að nýja hafísbreiðan geti leitt til kaldari vetra í Norður-Atlantshafi, að sögn vísindamanna. Þeir segja þó að áhrifanna á veðurfar myndi ekki gæta fyrr en eftir áratugi eða lengri tíma.
Á stærð við Lúxemborg
Hafísbreiðan er 2.550 ferkílómetrar og á stærð við Lúxemborg. Hún losnaði frá Mertz-jökultungunni 12. eða 13. þessa mánaðar.
Ástralskir vísindamenn segja að hafísbreiðan geti lokað svæði sem framleiðir þéttan, mjög kaldan og selturíkan sjó sem sekkur í hafsbotninn og knýr sjávarstraumana. Vísindamennirnir segja að hægi á þessari kólnun geti það breytt sjávarstraumunum þannig að veturnir verði kaldari í Norður-Atlantshafi.
Hefur áhrif á keisaramörgæsir
„Frá þessu svæði koma um 25% af framleiðslu botnsjávar við Suðurskautslandið,“ hafði fréttavefur breska ríkisútvarpsins,
BBC, eftir Neil Young, jöklafræðingi við áströlsku stofnunina Miðstöð rannsókna á loftslagi og vistkerfum í Suðurskautslandinu. Hann bætti við að þetta myndi því hægja á myndun hafstraumanna en sú þróun tæki langan tíma. „Og þetta mun einnig hafa áhrif á mörgæsir og fleiri dýr sem nota þetta svæði til fæðuöflunar.“
Hafísinn gæti meðal annars raskað fæðuöflun keisaramörgæsa nálægt Dumont d'Urville þar sem franskir vísindamenn eru með rannsóknastöð.
Háð rekstefnu íssins
Nýja hafísbreiðan losnaði í árekstri annars hafíss, B-9B, sem losnaði frá jöklinum árið 1987. Vísindamennirnir taka fram að hafísbreiðurnar hafi ekki áhrif á sjávarstraumana ef þær færast austur og festast við jökulbreiðuna, eða í norður á hlýrra svæði. „En ef þær haldast á þessu svæði – sem er líklegt – geta þær hindrað framleiðslu kalda sjávarins,“ hafði fréttastofan
AFP eftir franska jöklafræðingnum Benoit Legresy. bogi@mbl.is
Ágæt ágiskun en meira þarf til
„ÞETTA er svo sem ekki óskynsamleg ágiskun hjá þeim, en ég tel að það þurfi að leggja áherslu á að svolítið meira þurfi til,“ segir Þór Jakobsson veðurfræðingur um kenningu ástralskra vísindamanna þess efnis að hafísbreiða sem losnaði frá jökli á Suðurskautslandinu geti valdið kaldari vetrum í Norður-Atlantshafi.
Þór segir að þetta sé sama þróun og verið hafi undanfarin ár, þ.e. að stórir jakar losni frá suðurheimskautinu. „Ég á bágt með að trúa að svona fleki einn og sér geti breytt sjávarstraumum til lengdar. Ef hann fer langt í norður og bráðnar smám saman hefur hann kannski áhrif á yfirborðslögin um tíma, en það yrði staðbundið.“
Til þess að þau áhrif verði sem vísindamenn lýsi þurfi fleiri stórir jakar að brotna af reglulega á næstu árum.
Hafísþekjan í lágmarki
Á suðurhveli jarðar getur hafís dreifst tiltölulega óhindraður í allar áttir frá Suðurskautslandinu. Nýmyndaður hafís flyst auðveldlega út á hafsvæði þar sem hann bráðnar á næsta ári. Í febrúar er hafísþekjan í lágmarki á suðurhveli en í hámarki á norðurhveli jarðar.