Svo virðist sem fréttir af heldur harkalegum stjórnendaaðferðum Gordons Brown, forsætisráðherra Bretlands, hafi hjálpað ríkisstjórn hans. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun breska blaðsins Sunday Times, hefur Íhaldsflokkurinn einungis 2% forkskot á Verkamannaflokkinn, sem er minnsti munur á fylgi flokkanna í meira en tvö ár.
Brown gæti setið áfram við völd
Verði þetta niðurstaða kosninganna, er talið líklegt að Brown reyni að sitja áfram sem forsætisráðherra og að Verkamannaflokkurinn reyni halda völdum sem minnihlutastjórn, studd af einhverjum af minni flokkunum.
Samkvæmt þessari nýju könnun, sem birt er í dag á vef The Times, nýtur Íhaldsflokkurinn 37% fylgi, en Verkamannaflokkinn styður 35% kjósenda. Frjálslyndir demókratar, sem er þriðji stærsti flokkurinn, nýtur 17% fylgis.
Fréttnæmt þótt þegar sama könnun sýndi í síðustu viku að Íhaldsflokkurinn hefði 6% forskot, enda hafði forskot hans verið yfir 10% í lengri tíma.
Í könnuninni í dag kemur fram að 28% þátttakenda telja Brown beita samstarfsmenn sína harðræði. Helmingur telur hins vegar að forsætisráðherrann átti sig vel á muninum á réttu og röngu.
Skilur ekki „fólk eins og mig“
Íhaldsmenn hafa um nokkurt skeið haft áhyggjur af því að flokkur David Camersons höfði ekki til millistéttarinnar, enda eru forsvarmenn flokksins vellauðugir sem aldrei fyrr, og menntaðir í dýrustu einkaskólum landsins.
Samkvæmt þessari nýju könnun telja 25% þátttakenda Cameron skilja „fólk eins og mig“, en 35% telja Brown skilja stöðu hins almenna borgara. Þá telja 28% Íhaldsflokkinn ætla að stuðla að hag allra þjóðfélagshópa, meðan 39% telja Verkamannaflokkinn gera það.