Hamfarastigi lýst í Frakklandi

Flestir hinna látnu í Frakklandi drukknuðu á heimili sínu er …
Flestir hinna látnu í Frakklandi drukknuðu á heimili sínu er flóðvatn braust inn í húsin. reuters

Hamfarastigi hefur verið lýst í þeim héruðum Frakklands sem urðu hvað verst úti er stormviðri gekk yfir landið í fyrrinótt. Vitað er um tæplega 50 manns sem biðu bana af völdum veðursins. Flestir þeirra drukknuðu er flóðgarðar brustu svo flæddi inn í hús og hjólhýsi.

Francois Fillon forsætisráðherra segir að með ákvörðun stjórnarinnar að lýsa yfir hamfarastigi verði hægt að ganga í sérstaka sjóði til endurreisnar og uppbyggingar á hamfarasvæðunum. Hafa Frakkar farið fram á aðstoð Evrópusambandsins (ESB) vegna endurreisnarstarfsins.

Nicolas Sarkozy forseti ráðgerir að ferðast um héröðin við Atlantshafsströndina sem verst urðu úti, Vendee og Charente-Maritime.

Enn var rafmagnslaust á um hálfri milljón heimila á þessum svæðum og víðar um land í morgun. Talið er að taka muni jafnvel nokkra daga að gera við raflínur.

Þegar veðrið var sem verst komst veðurhæðin í allt að 140 km/klst. Jók það á vandann í Frakklandi að stórstreymt var þegar veðrið gekk inn á land af hafinu.

Á leið sinni inn yfir meginland Evrópu gekk hvassviðrið einnig yfir Portúgal, Spán og Þýskaland. Varð manntjón af völdum þess í þeim öllum; ekkert þó í líkingu við það sem gerðist í Frakklandi.

Alls hafa 53 dauðsföll verið rakin til Atlantsstormsins, sem fengið hefur nafnið Xynthia. Óttast er að ekki séu öll kurl komin til grafar.


Björgunarmenn höfðu í nógu að snúast í óveðrinu í Frakklandi. …
Björgunarmenn höfðu í nógu að snúast í óveðrinu í Frakklandi. Myndin er tekin í bænum L'Aiguillon sur Mer. reuters
Þyrla bjargar fólki af flóðasvæði í bænum La Faute sur …
Þyrla bjargar fólki af flóðasvæði í bænum La Faute sur Mer við vesturströnd Frakklands. reuters
Gríðarlegt tjón varð á skemmtibátum, bílum og mannvirkjum við vestutrströnd …
Gríðarlegt tjón varð á skemmtibátum, bílum og mannvirkjum við vestutrströnd Frakklands. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert