Karadzic: Heilagur málstaður Serba í Bosníu

Radovan Karadzic í réttarsalnum.
Radovan Karadzic í réttarsalnum. Reuters

Radovan Karadzic, fyrrum leiðtogi Bosníu-Serba, sagði þegar hann hóf málsvörn sína fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag, að málstaður Serba í Bosníustríðinu hefði verið „réttmætur og heilagur".

„Ég mun verja þjóð okkar og málstað hennar, sem var réttmætur og heilagur," sagði Karadzic. „Við höfum góðan málstað. Við höfum góð gögn og sannanir." 

Karadzic er ákærður fyrir að bera ábyrgð á þjóðernishreinsunum á Króötum og múslimum í Bosníustríðinu á árunum 1992 til 1995. Talið er að um það bil 100 þúsund manns hafi látið lífið og 2,2 milljónir manna hrakist frá heimilum sínum. 

Alls er Karadzic, sem er 64 ára, ákærður í 11 liðum fyrir þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.  Hann var handtekinn árið 2008 í Belgrad eftir að hafa farið huldu höfði í nærri 13 ár.

Talið er að það muni taka Karadzic 2 daga að lesa yfirlýsingu sína. Hann sniðgekk réttarhöldin í nóvember og krafðist þess að fá að minnsta kosti  9 mánaða frest til að undirbúa málsvörn sína en hann ætlar að verja sig sjálfur.   

Hann hefur krafist þess að enn verði gert hlé á réttarhöldunum, nú til 17. júní, eftir að hann hefur lesið yfirlýsingu sína. Segist Karadzic þurfa að lesa 400 þúsund síðna málsskjöl, sem saksóknarar hafa lagt fyrir réttinn. 

Dómstóllinn hafnaði þessari kröfu á föstudag og lýsti því yfir, að fyrsta vitni saksóknara muni koma fyrir réttinn á miðvikudag. Lögfræðilegir ráðgjafar Karadzics segja líklegt, að hann muni ekki mæta í réttarsalinn undir þessum kringumstæðum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert