Því meiri tíma sem ungmenni verja til sjónvarpsgláps eða tölvuleikja af öllu tagi þess minni reynast samskipti þeirra vera við vini sína og fjölskyldu, að því er nýbirt könnun sýnir.
Tæknin í dag býður jafnt upp á afþreyingu, nám og störf við skjái í sívaxandi mæli. Þessar niðurstöður þykja gefa tilefni til áhyggna því líf okkar færist æ meira í átt að skjám af öllu tagi, að mati höfunda rannsóknarinnar sem birtu niðurtöðurnar í The Archives of Pediatric and Adcolescent Medicine í dag.
Rannsóknin byggir á samanburði tveggja hópa og voru þeir skoðaðir með 16 ára millibili.
Í fyrsta hópnum voru 976 táningar. Þeir vörðu einum degi á rannsóknastaðnum um það bil sem þeir urðu 15 ára. Þetta var á árunum 1987 og 1988. Rannsóknin var gerð til að mæla hve miklum tíma þeir vörðu við að horfa á sjónvarp og hve háðir þeir voru foreldrum sínum og félögum.
Í seinni rannsóknarhópnum voru meira en þrjú þúsund ungmenni sem urðu 14 eða 15 ára á árinu 2004. Þá stóðu ungmennunum miklu fleiri skjáir til boða en einungis sjónvarpsskjáir -- þó ekki jafn margir og er í dag.
Síðarnefndi hópurinn svaraði spurningaeyðublöðum í skólum sínum til að hægt væri að komast að því hve miklum tíma þau vörðu við að horfa á sjónvarp, mynddiska eða myndbönd, hve miklum tíma þau vörðu við tölvuna í öðrum tilgangi en að sinna heimanámi og hvað þau vörðu miklum tíma í að spila tölvuleiki í heimatölvu, fartölvu eða leikjatölvum á borð við XBox, PlayStation eða Nintendo.
Þessi hópur var einnig spurður um lestur og heimavinnu. Þá voru samskipti þeirra við vini og fjölskyldu könnuð með sama spurningablaði og notað var 16 árum áður.
Í fyrstu könnuninni, á fólki sem einungis hafði aðgang að sjónvarpi, kom í ljós að fyrir hverja auka klukkustund sem varið var við sjónvarpið jukust líkurnar á litlum samskiptum við foreldra um 13% og líkur á litlum samskiptum við vini um 24%.
Hvað varðar síðari hópinn voru niðurstöðurnar svipaðar en einungis hvað varðaði samskiptin við foreldra. Fyrir hverja auka klukkustund sem varið var í sjónvarpsáhorf eða tölvuleiki jukust líkur á litlum samskiptum við foreldra um 5%.