Jerzy Buzek, forseti Evrópuþingsins, hefur sektað breska þingmanninn Nigel Farange um nærri 3.000 evrur (525.000 ÍKR) fyrir gífuryrði gegn Herman Van Rompuy, forseta Evrópusambandsins, í þingsal og fyrir að kalla hann „raka tusku“.
„Hann vonaði sannarlega að ég myndi draga í land í dag en það gerði ég ekki,“ sagði Farage, algerlega án nokkurrar iðrunar, í samtali við AFP fréttastofuna að loknum fundi. Hann er helsti talsmaður breska sjálfstæðisflokksins í evrumálum.
Jerzy Buzek, forseti Evrópuþingsins, kallaði Nigel Farage á sinn fund eftir ræðu þess síðarnefnda þegar Van Rompuy kom fyrst fyrir þingið. Buzek kvaðst verja rétt Farage til að vera á öndverðri skoðun um stefnumörkun eða stofnanir Evrópusambandsins.
„Það hins vegar gefur honum ekki leyfi til að móðga persónulega gesti Evrópuþingsins eða landið sem þeir koma frá,“ sagði Buzek. „Framkoma hans við hr. Rompuy var óviðeigandi, óþingleg og móðgangi við virðingu þingsins.“
Farage hefur áður verið gagnrýndur fyrir ræðuhöld sín. Hann hóf ræðu sína á miðvikudaginn var á orðunum: „Ég vil ekki vera dónalegur,“ og hélt áfram í ávarpi sínu til fyrrum forsætisráðherra Belgíu: „En í rauninni hefur þú persónutöfra rakrar tusku og lítur út fyrir að vera lágt settur bankastarfsmaður.
Hver ertu? Ég hef aldrei heyrt á þig minnst, enginn í Evrópu hefur nokkurn tíma heyrt á þig minnst,“ hélt Farage áfram og lýsti Belgíu „sem að mestu leyti svona ekki landi“.