Obama hyggst fækka kjarnorkuvopnum

Barack Obama forseti Bandaríkjanna hefur uppi áform um fækkun kjarnorkuvopna.
Barack Obama forseti Bandaríkjanna hefur uppi áform um fækkun kjarnorkuvopna. KEVIN LAMARQUE

Barack Obama Bandaríkjaforseti hyggst fækka kjarnorkuvopnum Bandaríkjahers verulega að því er fréttavefur BBC hefur eftir embættismönnum í Washington.

Þetta er liður í þeim áformum forsetans að draga úr útbreiðslu kjarnorkuvopna í heiminum. Obama er sagður hafa fundað í gær með Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, um breytta kjarnorkustefnu.

Að sögn heimildarmanns BBC gerir áætlun Obama ráð fyrir að birgðir kjarnorkuvopna verði minnkaðar verulega og að gengið verði lengra en í fyrri áætlununum til að draga úr útbreiðslu vopnanna. Þá verði hætt við hugmyndir um þróun nýrra kjarnorkuvopna sem ætlað var að ná til skotmarka neðanjarðar.

Embættismennirnir sem rætt var við segja stefnumörkunina mikilvægan lið í þeirri áætlun forsetans að draga úr útbreiðslu kjarnorkuvopna, en á fundi í Prag í apríl á síðasta ári lýsti hann sýn sinni af heimi án kjarnorkuvopna.Binda þyrfti endi á hugsunarhátt kalda stríðsins og bæri Bandaríkjamönnum  siðferðileg skylda til að leiða slíkt ferli.

Hvatti Obama til samstarfs um að hindra útbreiðslu kjarnorkuvopna og að efnt yrði til alþjóðaráðstefnu um öryggi í kjarnorkumálum, en slík ráðstefna verður haldin í næsta mánuði.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka