Fjögur skip hafa náð að losa sig úr hafísnum sem nú liggur yfir Eystrasalti en um 50 skip sitja þar enn þá föst. Eru sum skipanna föst á svæðinu á milli Stokkhólms og Álandseyja, á meðan að önnur eru föst á Helsingjabotni í norðurhluta Eystrasaltsins.
Hefur fréttavefur BBC eftir sænskum hafnaryfirvöldum að mörg skipanna muni sitja föst enn um sinn. Allir eru strandaglóparnir ómeiddir og eru enginn áform uppi um að flytja fólk burt af skipunum. Viðvörunarstig hefur þó verið hækkað og eru björgunarsveitir í viðbragðsstöðu að sögn Peter Lindquist, hjá sænsku hafnaryfirvöldunum.
Ferjan Amorella, sem var með hátt í 1.000 farþega innanborðs, náði að losa sig úr ísnum snemma í morgun að sögn AP-fréttastofunnar. Þá náðu ferjurnar Isabella og Finnfellow að losna úr ísnum á fimmtudag.
Yfirvöld í Finnlandi og Svíþjóð hafa notað ísbrjóta til að hjálpa skipunum sem þar sitja föst. „Venjulega væri hafísinn ekki vandamál fyrir fragtskip, en vandinn nú er að það er mjög vindasamt,“ sagði Jonas Lindvall sem fer fyrir sænsku ísbrjótunum í viðtali við sænska ríkisútvarpið. Vindhraðinn nú sé um 20 metrar á sekúndu sem þýði að ísinn fari hratt yfir. Fjöldi ísjaka sé á svæðinu sem geri skipunum erfitt um vik og því þurfi þau aðstoð.
Ferjurnar Amorella og Finnfellow rákust á er þær reyndu að smokra sér á milli ísjaka á fimmtudag. Mats Nystrom, farþegi á Amorella, segir það hafa verið áhrifamikla stund.
„Allt í einu heyrðist rödd í hátölurunum sem sagði að allir farþegar ættu samstundis að fara yfir á skutinn. Að sjálfsögðu fylltust farþegarnir áhyggjum og veltu fyrir sér hvað væri að gerast.“
Hafísinn nú er sá mesti í Eystrasaltinu í 15 ár, en talið er að veðurskilyrði muni fara batnandi í dag.