Meðal vissra hópa öfgamanna úr röðum múslíma í Danmörku þykir flott að vera grunaður um hryðjuverk eða önnur tengsl við öfgahópa. Grunaðir hryðjuverkamenn njóti virðingar og ákveðinnar samfélagsstöðu sem minni á fræga fólkið að því er segir á fréttavef Berlingske tidende.
„Það er „kúl“ hafa haf hlotið dóm fyrir hryðjuverk. Innan hins lokaða heims öfgatrúarmanna, þar sem allir þekkja alla, veitir það manni vissa stöðu að tengjast hryðjuverkum, hafa verið undir smásjá öryggislögreglunnar, eða að umgangast einn þeirra ímama sem predika öfgakenndari útgáfur af kóraninum. Minnir styrkur hópsins á það sem þekkist hjá glæpahópum“ hefur blaðið eftir Magnus Ranstorp, sérfræðingi í hryðjuverkum við sænsku varnarmálastofnunina.
„Í tengslum við það að vera „kúl“ þá gildir nákvæmlega það sama og hjá glæpaflokkum. Því öfgakenndari sem maður er, því hærri stöðu hefur maður. Í þessu tilfelli snýst það þó ekki um að fremja glæpi heldur að vera náinn öfgaklerkum, að eiga frumkvæði og taka þátt í að skipuleggja dagskránna og útiloka sig sjálfur frá umheiminum. Maður fær líka hærri stöðu með því að vera dæmdur fyrir hryðjuverk. Þá sáum við gerast með Said Mansour (dæmdur fyrir að hvetja til hryðjuverka),“ segir Ranstorp.
Grunur um hryðjuverk hefur þó einnig sínar neikvæðu hliðar. Þannig þora t.d. færri að hafa samskipti við þá sem eru undir smásjá yfirvalda. Ann-Sophie Hemmingsen, doktorsnemi í alþjóðafræðum, hefur kannað umhverfi hryðjuverka í Kaupmannahöfn. Hún tekur í sama streng.
„Þetta er tvíeggjað sverð. Lendi maður undir smásjá lögreglu, þá vita allir af því og þú getur ekki hreyft þig jafn óhindrað og áður. En það þykir samt flott. Viðkomandi verður næstum því frægur og á ýmislegt inni hjá samfélaginu, sérstaklega ef hann hefur verið kærður og síðan sýknaður,“ segir hún.