Bresk yfirvöld gerðu rétt með því að styðja innrás Bandaríkjamanna í Írak ári 2003 að mati Gordons Brown, forsætisráðherra Bretlands.
Brown sætti í dag fyrirspurnum rannsóknarnefndar um hlutverk sitt í fjármögnun stríðsins, en hann var á þeim tíma fjármálaráðherra í stjórn Tony Blair. Sagði Brown Saddam Hussein hafa hundsað alþjóðalög árum saman.
„Þetta var rétt ákvörðun og hún var tekin af réttum ástæðum,“ sagði Brown í athugasemdum sínum við upphaf Chilcot rannsóknarinnar, sem hefur það hlutverk að kanna þátt Bretlands í stríðinu.
„Þetta er alvarlegasta ákvörðun sem hægt er að taka,“ sagði Brown og bætti við: „Fjórtán ályktanir höfðu verið samþykktar hjá Sameinuðu þjóðunum en niðurstaðan var á endanum sú að það var ómögulegt að sannfæra hann um að fylgja alþjóðalögum.“
Meðal þeirra vitna sem nefndin ræðir við er Geoff Hoon, sem var varnarmálaráðherra á tímabilinu. Hann sagði herinn hafa skort tilhlýðilegt fjármagn árum saman fyrir innrásina. Breskir hermenn hafi farist í árásunum á Írak og í Afganistan af því að Brown hafi synjað bónum um betri búnað.
„Að fjármagna herinn ekki á þann hátt sem beðið var um ...kostaði efalítið líf einhverra hermanna,“ sagði hershöfðinginn Charles Guthrie í viðtali við dagblaðið Times, en hann fór fyrir herafla Breta á árunum 1997- 2001. „Þeir ættu að spyrja hann hvers vegna hann hafði svona litla samúð með varnarmálum en mikla með öðrum málaflokkum.“Fjölskyldur hermanna sem féllu í átökum hafa þegar krafist svara við því hvers vegna ríkisstjórnin hafi ekki útvegað hersveitunum fleiri þyrlur og sterkleg ökutæki sem gætu staðist vegasprengjur.
Á meðan Brown svaraði spurningum nefndarinn safnaðist hópur mótmælenda fyrir utan og veifaði þar blóðugri ávísun upp á 8.5 milljarða punda, en það er sú fjárhæð sem gagnrýnendur segja að stríðið hafi kostað.
„Ég tel að hann beri jafnmikla pólitíska ábyrgð á stríðinu og Tony Blair. Hann átti þess kost að stöðva það,“ sagði Andrew Burgin, talsmaður samtakanna Stop the War.