Drengur, sem fæddist í Göttingen í Þýskalandi fyrir átta mánuðum og vó aðeins 275 grömm við fæðingu, virðist ætla að dafna vel. Ekki er vitað til þess, að minna barn hafi fæðst og lifað af en læknar telja að almenn geti börn, sem vega undir 350 grömmum við fæðingu, ekki lifað.
Drengurinn kom í heiminn í júní í fyrra eftir tæplega 25 vikna meðgöngu og var þá á stærð við gosdós. Hann var í hálft ár á gjörgæsludeild háskólasjúkrahússins í Göttingen en var útskrifaður í desember og vó þá 3,7 kíló.
Stefan Weller, talsmaður sjúkrahússins, segir að læknar hafi rannsakað skýrslur um fyrirbura og ekki fundið nein dæmi þess að jafn lítið barn hafi lifað af. Fyrra „met" setti Tyler Martin, sem fæddist í New Jersey í Bandaríkjunum árið 2004 og vó þá 320 grömm.