Viðurkenndi að hafa orðið flugfreyju að bana

Mynd af Marion Clita, sem danska lögreglan dreifði.
Mynd af Marion Clita, sem danska lögreglan dreifði.

Rúmenskur karlmaður viðurkenndi í dómsyfirheyrslu í morgun að hafa ráðist á norska flugfreyju á hótelherbergi í Kaupmannahöfn á mánudagskvöld. Konan lét lífið en maðurinn sagðist ekki hafa ætlað að verða henni að bana. Hann var úrskurðaður í 25 daga gæsluvarðhald.

Flugfreyjan, sem hét Vera Vildmyren, fannst látin í herberginu á þriðjudagsmorgun. Hafði hún verið barin í höfuðið og stungin ítrekað í brjóstið og hálsinn. Rúmeninn, Marion Clita, gaf sig fram við lögreglu í Malmö í Svíþjóð á miðvikudag eftir að danska lögreglan lýsti eftir honum.

Clita sagðist hafa verið staddur á Radisson Blu hótelinu á Amager á mánudag og ætlað að stela þar fjármunum. Hann var í spilavíti í kjallara hótelsins en fór síðan upp á 20. hæð með lyftu. Þar sá hann herbergisdyr í hálfa gátt og fór inn. Það reyndist vera herbergi Vildmyren. Clita sagði að konan hefði hrópað upp og ráðist að sér með lampa. Hann hefði þá fyllst skelfingu og ráðist á konuna og orðið henni að bana.

Clita játaði einnig að hafa rænt veski og farsíma Vildmyren.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert