Wilders stefnir að stórsigri

Geert Wilders stefnir á stórsigur í þingkosningum í vor
Geert Wilders stefnir á stórsigur í þingkosningum í vor Reuters

Geert Wilders, leiðtogi Frelsisflokksins í Hollandi, fagnaði í gær sigri í sveitarstjórnarkosningum, sem fram fóru í fyrradag, og sagði hann fyrirboða stórsigurs flokksins í þingkosningum sem fram fara í júní.

Frelsisflokkurinn, sem berst gegn innflutningi múslíma og auknum áhrifum íslams, bauð aðeins fram í tveimur borgum, Almere og Haag. Hann fékk meira fylgi en nokkur annar flokkur í Almere, 21,6% atkvæðanna, og varð í öðru sæti í Haag. Almere er nálægt Amsterdam, með nær 190.000 íbúa, og Haag er þriðja stærsta borgin, með 442.000 íbúa, og stjórnaraðsetur Hollands.

„Verðum stærsti flokkurinn“

„Það sem er mögulegt í Haag er mögulegt í öllu landinu,“ sagði Wilders eftir að úrslit sveitarstjórnarkosninganna lágu fyrir. „Þetta er stökkpallur fyrir sigur okkar í þingkosningunum. Við verðum stærsti flokkur Hollands 9. júní.“

Frelsisflokkurinn fékk níu af 150 sætum á þingi Hollands árið 2006 þegar hann tók í fyrsta skipti þátt í þingkosningum. Flokkurinn fékk fjögur af 25 sætum Hollands á Evrópuþinginu í kosningum sem fram fóru í júní síðastliðnum.

Úrslitin í Almere og Haag eru í samræmi við nokkrar nýlegar skoðanakannanir sem benda til þess að Frelsisflokkurinn sé nú vinsælasti flokkur Hollands.

Tveir stærstu flokkarnir í síðustu kosningum, Verkamannaflokkurinn og Kristilegir demókratar (flokkur Jans Peters Balkenende forsætisráðherra), misstu fylgi í sveitarstjórnarkosningunum. Verkamannaflokkurinn fékk 23,45% kjörfylgi árið 2006 en um 16% í fyrradag. Kristilegir demókratar fengu 16,83% fyrir fjórum árum en misstu nú um tvö prósentustig.

Óttast að hatrið í garð múslíma aukist

„Ég óttast að þetta verði til þess að hatrið aukist,“ sagði tvítug námskona úr röðum múslíma í Almere um sigur Frelsisflokksins í borginni. Um þriðjungur íbúa Almere er af erlendu bergi brotinn.

Frelsisflokkurinn boðar algert bann við búrkum, vill stöðva innflutning fólks frá múslímalöndum og er andvígur því að fleiri moskur verði reistar í Hollandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert