Bresk blöð eru sammála um, að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hafi reynst háll sem áll þegar hann svaraði spurningum rannsóknarnefndar í gær um aðdraganda Íraksstríðsins. Brown hefði ruglað nefndarmenn í ríminu með talna- og upplýsingaflóði og sloppið óskaddaður frá yfirheyrslunni.
„Brosið sagði alla söguna: aðgerðin heppnaðist," sagði leiðarahöfundur Guardian um Brown í dag.
Blaðið sagði, að Brown hefði svarað öllum spurningum rannsóknarnefndarinnar, sem John Chilcot stýrir, nema þeirri stærstu: Hvers vegna lýsti hann ekki andstöðu við stríðið?
Dálkahöfundar Guardian fjölluðu einnig um yfirheyrsluna. Simon Hoggart sagði, að Gordon Brown hefði látið orðum og tölum rigna yfir nefndina. „Það varð að biðja hann að hægja á sér því hann talaði of hratt fyrir hraðritarann, sem hlýtur að hafa misst meðvitund," sagði Hoggart. Hann bætti við, að svo virtist sem Brown hefði verið að leika nýjan óhugnanlegan leik með því að tala eins lengi og mögulegt var og nota öll hugsanleg undanbrögð og endurtekningar.
Blaðið Daily Telegraph sagði í leiðara, að framburður Browns hefði ekki verið til þess fallinn að leiða fram staðreyndir og læra af þeim heldur að hreinsa forsætisráðherrann af allri sök. „Við þekkjum vel spegla og reykbrelluaðferðina. Honum líður aldrei betur en þegar hann getur þulið upp tölur eða vísað til skjala sem birt voru fyrir sex árum. Honum tókst að skapa þá tilfinningu, að hann hefði stutt innrásina í Íran en hefði samt ekki tengst henni á neinn hátt."
Kevin Maguire, dálkahöfundur Daily Mirror, sagði að Brown hefði staðið sig meistaralega og tekist að komast yfir erfiðustu hindrunina í aðdraganda þingkosninganna, sem verða í vor.
Blaðið Financial Times sagði, að þegar vandamál skytu upp kollinum væri Brown „aldrei þar" og honum hefði tekist að tryggja að fingraför hans væru ekki á þeirri ákvörðun að fara í stríðið. Hins vegar benti rannsóknin til þess að Brown hefði tekið fullan þátt í þeirri ákvörðun og því vöknuðu spurningar um persónu hans. „Það vekur áhyggjur að hann skuli aldrei viðurkenna mistök og einnig að hann skuli víkja sér undan ábyrgð."
Blaðið The
Independent sagði, að Brown hefði í raun varpað sökinni á aðra og hefði sloppið að mestu leyti óskaddaður og jafnvel grætt á öllu saman. Yfirheyrslan yfir Brown myndi væntanlega ekki hafa nein áhrif á kosningarnar og betri niðurstöðu hefðu Brown varla getað vænst.