Mahmud Ahmadinejad, forseti Írans, sagði í dag að hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin árið 2001 væri „haugalygi" runnin undan rifjum bandarískra njósnastofnana svo hægt væri að ráðast inn í Afganistan undir því yfirskyni að það þyrfti að brjóta hryðjuverkaöfl á bak aftur.
Ahmadinejad hefur nokkrum sinnum áður lýst efasemdum um að hryðjuverkamenn á vegum al-Qaeda samtökunum hefðu staðið fyrir árásunum á New York og Washington þar sem nærri 3000 manns létu lífið.
Íranska sjónvarpið hafði einnig eftir forsetanum í kvöld, að árásirnar á turna World Trade Center í New York hefðu verið sviðsettar af bandarískum leyniþjónustustofnunum.
Ahmadinejad sagði í janúar, að árásirnar 11. september væru grunsamlegt mál, svipuð og helförin, sem forsetinn hefur lýst sem goðsögn.