Svisslendingar hafna réttargæslumönnum til handa dýrum

Kjósendur í Sviss höfnuðu i þjóðaratkvæðagreiðslu í dag tillögu sem gerði ráð fyrir að skylt væri að skipa réttargæslumenn fyrir dýr í málum þar sem grunur léki á um illa meðferð þeirra. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Dýraverndarsamtök fóru fram á þjóðaratkvæðagreiðsluna með þeim rökum að án slíkra réttargæslumana væri mikil hætta á því að ekki tækist að refsa nema litlu broti þeirra sem gerðust sekir um illa meðferð á dýrum.

Tillögunni var hafnað með 70% greiddra atkvæða. Þeir sem töluðu gegn tillögunni héldu því fram að Sviss þyrfti ekki strangari dýraverndarlög en þegar væru fyrir hendi í landinu. Meðal þeirra sem lögðust gegn tillögunni var ríkisstjórn landsins.

Að mati stjórnamálaskýrenda má skýra afstöðu kjósenda að stórum hluta af því að þeir hafi óttast hvað slíkt kerfi réttargæslumanna til handa dýrum myndi kosta skattgreiðendur.

Dýraverndarlög í Sviss eru ein þau ströngustu í heimi. Í þeim er m.a. kveðið á um að grísir, gullfiskar og önnur gæludýr megi ekki skilja ein eftir, hestar og kýr eiga rétt á því að fara reglulega út undir bert loft á öllum tímum árs og hundaeigendur eru skyldaðir til þess að sækja námskeið þar sem þeir fræðast um umönnun dýra sinna.





mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert