Barnið fannst grafið í skafl

Örvæntingarfullri leit að þriggja mánaða dreng, sem var rænt úr barnavagni í Finnlandi, lauk eftir þrjá tíma þegar barnið fannst grafið í skafl. Lögreglumenn heyrðu drenginn gráta og grófu hann upp úr snjóskaflinum.

Litli drengurinn fannst kl. 14.10 að finnskum tíma (12.10 á Íslandi) nálægt staðnum þar sem honum var rænt í morgun. Hann var í kuldagalla og með húfu og vettlinga þegar honum var rænt. Farið var með snáðann á sjúkrahús og líður honum eftir atvikum vel, að sögn lögreglunnar í Varkaus.

Fréttastofa danska útvarpsins greinir frá því að barnið hafi fundist grafið undir um 20 sentimetra lagi af snjó og um sex metra frá húsinu þar sem því var rænt. Móðirin fór reglulega að fylgjast með litla drengnum þar sem hann lá í vagninum. 

Þegar hún uppgötvaði að drengurinn var horfinn sá hún að vagninn hafði verið færður úr stað. Hún hringdi þegar í föður drengsins og lögregluna.

Hufvudstadsbladet segir að lögreglan rannsaki málið sem alvarlega frelsissviptingu. Fjöldi lögreglumanna, herþyrla og margir sjálfboðaliðar tóku þátt í leitinni. Lögreglustöðvum í nálægum byggðarlögum var einnig gert viðvart.

Ekki hefur verið gefið upp hvort einhver tiltekinn liggi undir grun um barnsránið.

Drengnum var rænt þar sem hann lá í barnavagni utan við einbýlishús í Kuoppakangas-hverfi um kl. 9 í morgun að finnskum tíma. Móðir drengsins var þar í heimsókn og hafði litið eftir honum um tíu mínútum áður en honum var rænt. 

Senditæki var í barnavagninum en af einhverjum ástæðum heyrðist ekki í mótttökutækinu þegar barninu var rænt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert