Nokkur umræða hefur skapast um það í netheimum að sleppa eigi háhyrningnum lausum sem varð þjálfara sínum að bana í Sea World skemmtigarðinum í Flórída í Bandaríkjunum í síðasta mánuði.
Einn þeirra sem blandað hefur sér í umræðuna er Peter Singer, prófessor í siðfræði raunvísinda við Princeton háskólann og Háskólann í Melbourne. Í grein sem hann ritar á vef Project Syndicate segir hann dauða þjálfarans, Dawn Brancheau, vera harmleik og vottaði fjölskyldu hennar samúð sína.
„En atvikið vekur upp fleiri spurningar. Var árásin gerð að yfirlögðu ráði? Var háhyrningurinn Tilikum, sem gengur undir gælunafninu Tilly, að bregðast við streitufullum aðstæðum sem felast í því að vera í haldi í sótthreinsuðum steinsteyptum tanki? Var hann þreyttur á því að vera neyddur til þess að leika listir sínar áhorfendum til skemmtunar? Er rétt að halda svona stórum dýrum föngnum?“
Í grein Singers kemur fram að Tilly hafi áður komið við sögu í tveimur dauðsföllum. Í fyrra tilvikinu fékk þjálfari hans ofan í laugina og Tilly, ásamt tveimur öðrum háhyrningum, drekktu honum. Í seinna tilvikinu fannst maður, sem laumað hafði sér inn í skemmtigarðinn eftir lokun, látinn í sömu laug og Tilly. Krufning leiddi í ljós að hinn látni var með bitför. Eitt afkvæma Tillys varð þjálfara sínum að bana í skemmtigarði á Spáni.
Singer vitnar til Richard Ellis, sem berst fyrir réttindum sjávardýra, sem er sannfærður um að háhyrningar séu gáfuð dýr sem myndu ekki drepa fólk af skyndihvöt. Ellis er sannfærður um að dráp Tilly á þjálfaranum hafi verið af yfirlögðu ráði.
Singer bendir á að háhyrningar séu félagslegar verur og telur líklegt að það hafi reynt mjög á Tilly þegar hann var fangaður árið 1983 undan ströndum Íslands og þannig skilinn frá móður sinni og ættingjum. Bendir hann á að aðstæður í skemmtigörðum geti aldrei líkst því að synda frjáls um í sjónum, enda sé vist Tilly í laug sambærileg við það ef manneskja þyrfti að verja því sem eftir væri í baðkarinu sínu.
Hann hvetur almenning til þess að þrýsta á stjórnvöld að frelsa öll þau dýr sem eru til sýnis hvort heldur er í dýragörðum, skemmtigörðum eða fjölleikahúsum. Til þess að segja aukin þrýsting á þá sem geri út á dýr til skemmtunar sé mikilvægt að sniðganga fyrrgreinda staði.