Anders Borg, fjármálaráðherra Svía, segir að Íslendingar geti ekki kosið sig frá skuldbindingum sínum. Hann telur að íslenska þjóðin verði að ná samningum við Hollendinga og Breta um endurgreiðslu Icesave-skuldar. Borg sagði á blaðamannafundi í dag að hann teldi Icesave-samninginn sanngjarna lausn.
Borg sagði einnig að ákvörðun sænsku ríkisstjórnarinnar um að veita Íslandi lán hafi ekki breyst við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Lánið verði þó ekki innt af hendi „fyrr en Ísland stendur við alþjóðlegar skuldbindingar sínar,“ sagði Borg, að því er fram kemur á vefsíðu Aftenposten.