Fyrrum hátt settur starfsmaður hjá bresku leyniþjónustunni sakar Bandaríkjamenn um að hafa leynt Bretum upplýsingum um pyntingar á grunuðum hryðjuverkamönnum. Miklar umræður hafa verið í Bretlandi um að breska leyniþjónustan, M15, hafi vitað um og jafnvel tekið þátt í pyntingum á t.d. föngum í Guantanamo.
Eliza Manningham-Buller segir að hún hafi ekki skilið hvers vegna Khalid Sheikh Mohammed, sem sakaður er um að hafa skipulagt hryðjuverkarárásirnar 11. september, var tilbúinn til að ræða við Bandaríkjamenn, fyrr en hún uppgötvaði að hann hafði verið pyntaður.
Mohammed var pyntaður með aðferð sem kallast „Waterboarding“, en þar er viðkomandi bundinn þannig að höfuðið hallar niður, og vatni svo helt yfir höfuðið til að framkalla drukknunartilfinningu.
„Bandaríkjamönnum var umhugað um að fólki eins og okkur væri ekki kunnugt um hvaða aðferðum þeir beittu,“ sagði Manningham-Buller í fyrirlestri sem hún var beðin um að halda í breska þinginu.