Flett ofan af „breskum Fritzl“

Breskur faðir nauðgaði tveimur dætrum sínum ítrekað
Breskur faðir nauðgaði tveimur dætrum sínum ítrekað Af vef Amnesty International

Breskur faðir nauðgaði tveimur dætrum sínum ítrekað og eignaðist með þeim sjö börn á 35 árum líkamlegrar og kynferðislegrar misnotkunar. Þessi „breski Fritzl“, eins og hann er nefndur, slapp sjö sinnum undan ásökunum um sifjaspell. Eftirlitsstofnanir hafa beðið dæturnar afsökunar á vanrækslunni.

Í dag var birt skýrsla þar sem fram kemur að röð mistaka fagfólks á umönnunarsviði sé helsta ástæða þess hve lengi maðurinn komst upp með misnotkunina á dætrum sínum, að sögn Fréttavefjar Times.

Opinberar stofnanir í Sheffield og Lincolnshire birtu í dag opinskáa afsökunarbeiðni til kvennanna tveggja fyrir að hafa brugðist í því að verja þær fyrir föður sínum.  Stofnanir sem komu að málefnum fjölskyldunnar gripu ekki til aðgerða gegn föðurnum, þótt hann hafi sjö sinnum verið sakaður um sifjaspell auk tólf tilfella þar sem hann var sakaður um ofbeldi.

Maðurinn, sem nú er 57 ára gamall, var dæmdur í 25 falt ævilangt fangelsi eftir að dætur hans sögðu félagsráðgjöfum frá ævilangri áþján sinni árið 2008.  Þegar farið var að rannsaka málið kom í ljós að meira en 100 faglærðir starfsmenn frá 28 skrifstofum eða stofnunum í Sheffield og Lincolnshire höfðu komið að málefnum fjölskyldunnar á 35 ára bili, eða frá 1973 til 2008.

Fjölskyldan flutti búferlum 67 sinnum á þessu árabili því fjölskyldufaðirinn, sem stjórnaði eiginkonu sinni og börnum með „ofbeldi, þvingunum, þjösnaskap og ofríki“ forðaðist að upp um hann kæmist.

Alls voru haldnir 16 fundir eða ráðstefnur barnaverndaryfirvalda til að ræða áhyggjur af þessari tilteknu fjölskyldu. Aldrei voru börnin þó tekin frá föður sínum. 

Í útdrætti skýrslu um þetta alvarlega mál kemur í ljós að á árunum 1988 til 2002 urðu dæturnar tvær barnshafandi alls sextán sinnum. Þar af voru þær fjórum sinnum báðar óléttar í einu. Níu börn eða fóstur dóu vegna erfðagalla og af sjö börnum sem lifa eru tvö alvarlega líkamlega fötluð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka