Reynsluflugmenn Boeing flugvélaverksmiðjanna ætluðu til Íslands að prófa nýju 787 Dreamliner flugvélina í hliðarvindi. Þá lægði svo þeir fóru frekar til Roswell í Nýju Mexíkó.
Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi FLUG-KEF, segir að ekki hafi borist formleg beiðni frá Boeing vegna reynsluflugs, en slíkar beiðnir berist venjulega með stuttum fyrirvara.
Það að til standi að prófa nýju Boeing 787 Dreamliner flugvélina hér á landi kemur fram í viðtali ástralska dagblaðsins The Australian við Dennis O'Donoghue, aðstoðarforstjóra Boeing, sem stýrir prófanadeild flugvélaframleiðandans. Þrjár Dreamliner flugvélar, hlaðnar mælitækjum, eru nú notaðar til reynsluflugs og sú fjórða bætist brátt við.
„Við förum alla leið til Íslands að prófa flug í hliðarvindi - Ísland er alltaf gott fyrir hliðarvind,“ sagði O'Donoghue.
Fyrsta reynsluflug vélar af gerðinni Dreamliner, eða Draumfara, fór farm í desember. Í greininni kemur fram að ein flugvélanna hafi byrjað reynsluflug utan Washington-ríkis þegar henni var flogið til Kaliforníu. Þar voru gerðar lágflugsprófanir og önnur próf. Einnig kemur til greina að prófa flugvélar í miklum loftslagshita í Ástralíu eða Bandaríkjunum. Prófanir á flugvöllum hátt ofan sjávarmáls í Bólivíu og í Alaska eða á Suðurhveli á að prófa að láta vélina standa úti í frosti.
Evrópsku Airbus verksmiðjurnar sendu flugvél af gerðinni Airbus A-380, stærstu farþegaflugvél heims, hingað til lands í byrjun ársins 2007 svo hægt væri að æfa lendingar í miklum hliðarvindi.