Gerði CIA tilraun með LSD á heilu þorpi?

Pont-Saint-Esprit.
Pont-Saint-Esprit.

Bandarískur rannsóknarblaðamaður segist hafa komist yfir upplýsingar sem sýni, að bandaríska leyniþjónustan CIA og Bandaríkjaher hafi gert leynilegar tilraunir með fíkniefnið LSD um miðja síðustu öld sem m.a. olli því að fjöldi íbúa í frönskum bæ sá ofsjónir,  nokkrir frömdu sjálfsmorð og tugir voru vistaðir á geðsjúkrahúsum.  

Stór hluti íbúa í bænum Pont-Saint-Esprit í Suður-Frakklandi gekk skyndilega af göflunum árið 1951. Að minnsta kosti 5 sviptu sig lífi, tugir voru fluttir á geðsjúkrahús og fleiri urðu fyrir þessum áhrifum. Almennt var talið, að ofskynjunarsveppir hefðu af einhverjum ástæðum komist í brauð, sem bakað var í bænum eða það hefði mengast af kvikasilfri. 

Fjallað er um málið í blaðinu Daily Telegraph í dag. Þar segir að einn maður hafi reynt að drekkja sér og hrópað að snákar væru að éta hann að innan. 11 ára gamall drengur reyndi að kyrkja ömmu sína. Annar maður hrópaði: Ég er flugvél, og stökk síðan út um glugga á annarri hæð og fótbrotnaði. Fjöldi manna fékk ofskynjanir. 

En bandaríski blaðamaðurinn H. P. Albarelli Jr. fullyrðir nú í nýrri bók, að ofskynjanir þorpsbúa hafi stafað af leynilegri tilraun, sem gerð var undir stjórn bandarísku leyniþjónustunnar CIA og  leyniþjónustustofnana á vegum Bandaríkjahers.

Hann segir, að vísindamennirnir, sem komu fram með skýringarnar á sveppa- og kvikasilfurmenguninni hafi í raun unnið fyrir svissnesku stofnunina  Sandoz, sem á þessum tíma útvegaði bæði CIA og Bandaríkjaher ofskynjunarefnið LSD með leynd.

Albarelli segist hafa fundið CIA-gögn sem varpa á þetta ljósi þegar hann var að rannsaka dauða Frank Olson, líffræðings sem kastaði sér niður af 13. hæð árið 1953. Á minnisblaðið er lýst samtali starfsmanns CIA og yfirmanns hjá Sandoz, þar sem fjallað er um „leyndarmálið í Pont-Saint-Esprit". Segir síðan að ofskynjanirnar hafi ekki stafað af myglusveppi heldur   diethylamide, D-inu í LSD.

Albarelli ræddi við fyrrum vinnufélaga Olsons sem sögðu honum, að Pont-Saint-Esprit málið tengdist heilaþvottartilraun sem CIA og Bandaríkjaher hefðu gert. Sú tilraun var afar umfangsmikil og tengdist Kóreustríðinu. 

Hefur Albarelli eftir fyrrum vísindamönnum í Fort Detrick í Maryland, að starfsmenn CIA hefðu sprautað LSD út í loftið og einnig mengað matvæli á nokkrum stöðum.  

Albarelli  segir að í skjali, sem tengdist opinberri rannsókn á meintum lagabrotum CIA árið 1975, séu nöfn franskra ríkisborgara sem unnu með leynd fyrir leyniþjónustuna. Þar er einnig vísað til Pont-Saint-Esprit. Albarelli heldur því einnig fram, að yfir 5700 bandarískir hermenn hafi verið látnir taka LSD án sinnar vitundar á árunum 1953 til 1965 í tengslum við rannsókn á því hvort hægt væri að nota LSD í hernaðarlegum tilgangi. 

Bandarískir fjölmiðlar segja, að yfirmenn frönsku leyniþjónustunnar hafi krafist skýringa hjá CIA í kjölfar þess að bók Albarellis kom út en franska leyniþjónustan hefur ekki viljað staðfesta þetta. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka