Hátt settur ráðgjafi George Bush yngri, fyrrum forseta Bandaríkjanna, ver í viðtali við BBC harkalegar yfirheyrsluaðferðir, sem stjórn Baracks Obama, núverandi bandaríkjaforseta, hefur bannað.
Karl Rove, sem hefur verið kallaður „heili Bush“, segist vera „stoltur af því við skyldum nota aðferðir sem brutu á bak aftur vilja þessara hryðjuverkamanna“. Jafnframt fullyrðir hann að upplýsingar sem fengust með slíkum aðferðum hafi verið hægt að nota til að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir, til að mynda á London og Los Angeles.
Segir „waterboarding“ ekki vera pyntingar
Rove ver m.a. aðferð sem á ensku nefnist „waterboarding“ og felst í því að viðkomandi er bundinn þannig að höfuð hans hallar niður á við, og vatni helt yfir andlit hans, sem framkallar drukknunartilfinningu. Obama bannaði aðferðina á síðasta ári og sagði hana ekkert annað en eitt form pyntingar. Rove segir hins vegar rangt að kalla aðferð þessa pyntingu; og bendir á að henni sé beitt á bandaríska hermenn sem lið í þjálfun þeirra.
Vitað er að aðferðinni hefur verið beitt á fanga í Guantanamo fangelsinu, m.a. á Khalid Sheikh Mohammed sem talinn er vera einn af höfuðpaurum hryðjuverkaárásarinnar 11. september 2001.
„Já, ég er stoltur af því að við skyldum hafa gert heiminn að öruggari stað með því að nota þessar aðferðir. Þær eru viðeigandi, og samrýmast alþjóðlegum skuldbindingum okkar og bandarískum lögum,“ segir Rove, sem hefur nýlega skrifað endurminningar sínar, Courage and Consequence.
Hér er hægt að sjá viðtalið við Rove.