Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Dimitrí Medvedev, forseti Rússlands, eru nálægt því að ná samkomulagi um afvopnun kjarnavopna, að því er AFP-fréttastofan hefur eftir rússneskum stjórnvöldum í Kreml.
Samningamenn þjóðanna hafa undanfarið hist í Genf í Sviss til að ræða framhald START afvopnunarsamkomulagsins, sem undirritað var í lok kalda stríðsins við upphaf tíunda áratugar síðustu aldar, og sem rann út um síðustu áramót.
Hafa forsetarnir báðir lýst yfir mikilli ánægju með þann mikla undirbúning sem farið hefur í nýja samninginn. Mikil áhersla hefur verið lögð á að föst tímasetning verði sett á að samningsdrög liggi fyrir
Medvedev og Obama „samþykktu að veita samninganefndunum frekari útlistun,“ með það í huga að samningsgerðinni verði lokið, sagði í yfirlýsingu frá Kreml.
Arftaki START samningins hefur verið ofarlega á forgangslista Obama í utanríkismálum, enda er nýr samningur talinn geta stutt við hugmyndir forsetans um kjarnavopnalausan heim.