Breskir einkabankar munu þurfa á gífurlegum fjárhæðum að halda til að endurfjármagna sig á næstu árum, lánsþörf sem sett gæti marga banka í vanda í ljósi þess að vextir gætu hækkað og lánshæfismat breska ríkisins versnað á komandi misserum.
Jeremy Warner, aðstoðarritstjóri breska dagblaðsins The Daily Telegraph, gerir þetta að umtalsefni í pistli á bloggi sínu þar sem hann vitnar í árlegt áhættumat breska fjármálaeftirlitsins (FSA) á þeim hættum sem leynast í bresku fjármálalífi.
Kemur þar fram að breskir bankar muni þurfa 440 milljarða punda, um 83.720 milljarða króna, fyrir árslok 2012 til að endurfjármagna skuldir sem eru að nálgast gjalddaga og eru þar af um 57.000 milljarðar króna tryggðar af ríkinu, upphæð sem Englandsbanki hefur gefið út að einkabankarnir verði að standa undir.
Þar með er öll sagan ekki sögð því eins og Warner bendir á kom fram í stöðugleikaskýrslu Englandsbanka í desember að bankarnir standi frammi fyrir 190.000 milljarða króna „tímasprengju“ á næstu fimm árum.
Sjá nánari umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.