EMU kemur Grikkjum til bjargar

Evrur.
Evrur. Reuters

Hin sextán ríki Efnahags- og myntbandalags Evrópu hafa komið sér saman um margmilljarða björgunarpakka til bjargar Grikkjum og evrunni. Samkvæmt hinu breska Guardian, felur samkomulagið í sér bæði lán og lánsábyrgðir upp á um 25 milljarða evra, um 4.350 milljarða íslenskra króna gangi Grikkjum erfiðlega að fjármagna. Þó er talið að lánsfjárþörfin geti numið allt að 55 milljörðum, eða jafnvirði um 9.570 króna í lok þessa árs.

Mikil andstaða hafði verið gegn slíkri aðstoð  hjá Þjóðverjum sem hafa nú gefið eftir og gegndu lykilhlutverki við gerð samkomulagsins. Er gert ráð fyrir að ráðherrar EMU landanna gengi frá björgunapakkanum í dag. Heimildir The Guardian herma að regluverk í kringum evruna verði samið upp á nýtt til að hvetja til meira aðhalds í fjármálum ríkjanna.

Evrópuleiðtogarnir vonast þó til að harðar niðurskurðaraðgerðir George Papandreau, forsætisráðherra Grikkja dugi til að friða markaðinn og koma jafnvægi á evruna, þannig að ekki þurfi að koma til aðgerða. Fyrirhugað er að þeir muni koma saman á fundi í næstu viku til að meta hvort niðurskurðaraðgerðir hans dugi til að minnka fjárlagahalla Grikkja úr 12,7% í 8% en markmiðið er að skera niður ríkisútgjöld um 10% á næstu þremur árum.

Fyrirhugaður niðurskurður hefur þegar vakið öldu mótmæla í Grikklandi og í vikunni fór almenningur þar í sólarhrings allsherjarverkfall til að mótmæla honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert