Páfi ekki tengdur kynferðisbrotum

Benedikt páfi.
Benedikt páfi. Reuters

Vatikanið reynir nú að verjast tilraunum til að tengja Benedikt XVI páfa við kynferðisbrot prests. En þýska biskupsdæmið í München og Freising staðfesti á föstudag frétt þýska blaðsins Süddeutsche Zeitung, um að Benedikt páfi XVI hefði árið 1980, er hann var erkibiskup í München, tekið þátt í að ákveða að prestur, sem sakaður var um barnaníð, fengi að dvelja á prestsetri í sókninni svo hann gæti gengist undir meðferð.

„Það er ljóst að á undanförum dögum hafa einhverjir reynt, af mikilli þrautseigju, að tengja páfan við kynferðisbrotamál,“ sagði Federico Lombardi talsmaður Vatikansins á útvarpsstöð Vatikansins. „Það er líka ljóst að þessar tilraunir hafa mistekist.“

Presturinn sem meðferðina þáði, hafði verið sakaður um að neyða 11 ára gamlan dreng til munnmaka. Sex árum síðar hlaut hann skilorðsbundin dóm vegna kynferðisbrota. Að sögn biskupsdæmisins starfar presturinn enn á svæðinu og er ekki vitað til þess að hann hafi brotið af sér aftur.

Þetta er eitt margra hneykslismála sem komið hafa upp hjá kaþólsku kirkjunni í Þýskalandi og tengist eitt málið raunar náið Georg Ratzinger, fyrrum kórstjóra og bróður páfa.

Fyrsta hneykslismálið kom upp í janúar, er  það kom í ljós að nemendur vel virts jesúítaskóla í Berlín höfðu reglulega sætt kynferðisbrotum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Meðal annarra heimavistarskóla þar sem talið er að kynferðisbrot hafi viðgengist er Domspatzen, skóli dómkirkjunnar í Regensburg sem var stjórnað af Ratzinger, bróður páfa, í 30 ár.

Ratzinger, sem nú er á níræðisaldri, sagði á þriðjudag að hin meintu brot hefðu verið framin á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og að þau hefðu aldrei verið rædd eftir að hann tók við embætti. 

Þýska tímaritið Der Spiegel hefur þó eftir Thomas Mayer, fyrrum kórdreng, að honum hafi verið nauðgað af eldri kórdrengjum og að Ratzinger hafi tekið æðisköst á kóræfingum.

„Ratzinger, ég sá hann verulega reiðan og uppstökkan á æfingum,“ sagði Mayer. „Nokkrum sinnum sá ég hann kasta stól í átt að þeim kórröddum sem ég tilheyrði. Einu sinni var hann svo reiður að hann spýtti út úr sér fölsku tönnunum.“ 

Ratzinger viðurkenndi nýlega að hafa slegið nemendur eftir að hann var fyrst ráðinn og að hann hefði slæma samvisku vegna þessa. Þess vegna hefði honum líka létt mikið er líkamsrefsingar voru bannaðar með lögum á níunda áratug síðustu aldar.

Fréttir af misnotkun innan kirkjunnar í Evrópu hafa kallað á rannsóknir kirkjuleiðtoga, ekki hvað síst í Þýskalandi þar sem slík mál hafa komið upp í 19 af 27 biskupsdæmum. 

Lombardi sagði í dag að páfinn hvatti til að sannleikurinn kæmi fram í dagsljósið og að hjálpa þyrfti fórnarlömbum sem hefðu verið misnotuð. Kaþólska kirkjan væri ekki þeirrar skoðunar að það ætti að hilma yfir slík brot, heldur að dæma og veita hinum seku hæfilega refsingu.

Fæstir þeirra sem presta sem brotin frömdu munu sæta ákærum þar sem fyrnt hefur yfir glæpina í mörgum tilfellum. Þær raddir verða þó sífellt háværari sem krefjast lagabreytinga og að kirkjan greiði fórnarlömbunum bætur.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert