Nýsjálendingar munu nú vera að íhuga stuðning sinn við þá hugmynd Alþjóðahvalveiðiráðsins að leyfa takmarkaðar hvalveiðar en jafnframt draga úr fjölda þeirra hvala sem veiddur er á hverju ári í vísindaskyni. Með því færðust vísindaveiðarnar undir hatt ráðsins en Japanir og Norðmenn hafa ásamt Íslendingum stundað hvalveiðar í vísindaskyni.
Í grein sem birt er á vef New Zealand Herald er bent að slíkt væri óneitanlega mikill viðsnúningur hjá þjóð sem hefur alltaf stutt við verndun hvala. Sir Geoffrey Palmer, fulltrúi Nýsjálendinga í ráðinu sem vann að samningsdrögunum viðurkennir að fyrir marga landa sína jafngildi slíkur viðsnúningur því að þeir „gleyptu dauða rottu.“
Er í greininni bent á að vegna þess hve viðkvæmt málið sé fyrir marga Nýsjálendinga mætti búast við að áður en ákvörðun um slíka stefnubreytingu væri tekin þyrfti að fara fram öflug umræða á opinberum vettvangi.
Utanríkisráðherra landsins, Murray McCully hefur heitið því að Nýsjálendingar fái að koma sínum sjónarmiðum á framfæri áður en endanlega afstaða verði tekin til málsins, þó ekki sé enn ljóst hvernig staðið verði að því að auðvelda almenningi að koma skoðunum sínum þar að lútandi á framfæri.