Slóttug söngkona grunuð um morð

Veiðikofi í Kappel-Grafenhausen.
Veiðikofi í Kappel-Grafenhausen. Kappel-Grafenhausen

Lögreglan í Baden-Württemberg rannsakar nú mál sem gæti verið ættað úr heimi glæpasagna. Í aðalhlutverki er 71 árs gömul óperusöngkona og eiginmaður hennar og jafnaldri, Hermann H., sem hvarf sporlaust. Hvarfið var tilkynnt í október s.l.. Lögregluna grunar að söngkonan eigi þátt í mannshvarfinu.

Fréttavefur Politiken greinir frá málinu en þýska blaðið Süddeutsche Zeitung hefur fylgst með þessari ótrúlegu sögu eftir því sem henni hefur undið fram.

Talið er að Hermann H. sé látinn en lík hans hefur ekki fundist. Hermann H. var veiðimaður og fiskræktandi að atvinnu. Leigjandi hans hafði þá samband við lögregluna því hann hafði ekki séð Hermann H. mánuðum saman.

Lögreglan fór þá í heimsókn til veiðimannsins og óperusöngkonunnar þar sem þau bjuggu í Kappel-Grafenhausen, um 40 km norðan við Freiburg. Rannsóknir á vettvangi þar leiddu ekkert grunsamlegt í ljós. Lögreglan segir að óperusöngkonan hafi verið einkar ósamvinnuþýð.

Lögreglan telur sig finna grunsamlegan fnyk af málinu. Það dró ekki úr grunsemdunum þegar óperusöngkonan birtist skyndilega á lögfræðiskrifstofu með karl upp á arminn. Hún staðhæfði að hann væri eiginmaður sinn, hinn 71 árs gamli horfni veiðimaður.

Fylgisveinn óperusöngkonunnar vildi að lögfræðingurinn útbyggi skjal þar sem konunni yrðu tryggð óskoruð umráð yfir fjármálum þeirra „hjóna“. Lögfræðingurinn féllst á þetta, með því skilyrði að haldinn yrði fundur með lögreglunni svo yfirvöld gætu sjálf séð að Hermann H. var á lífi og við góða heilsu.

Þegar lögreglan mætti var Hermann H. ekki til staðar frekar en óperusöngkonan. Hún bað síðar lögregluna afsökunar á því að manninn hennar  hafi skyndilega langað í skemmtisiglingu.

Skömmu síðar mætti frúin hjá öðrum lögbókanda í fylgd karls sem kvaðst vera eiginmaður hennar.  Konunni tókst að fá undirskriftina í það skiptið en illu heilli - fyrir hana - grunaði lögregluna að óhreint mjöl væri í pokahorninu.

Skötuhjúin voru bæði handtekin og karlinn játaði að hafa verið leigður sem staðgengill eiginmannsins. Hann hafði verið klæddur í föt af Hermanni H. og sminkaður af förðunarmeistara til að líkjast hinum horfna veiðimanni.

Lögreglan leggur nú allt kapp á að komast að raunverulegum örlögum Hermanns H. Talið er fullvíst að uppátæki konu hans séu til að fela blóðuga slóð hennar. Eftir að óperusöngkonan var handtekin hafa mörg vitni gefið sig fram og sagt frá því að hún hafi beðið þau að staðfesta að þau hafi séð mann hennar nýlega á lífi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert