Rannsóknir á erfðaefni norrænna manna, sem jarðaðir voru á Suður-Grænlandi fyrir um þúsund árum, sýna að í æðum víkinganna rann keltneskt blóð. Danskir fornleifafræðingar sem rannsaka norrænar mannvistarleifar í Grænlandi hafa fundið út að nokkrar beinagrindur eru frá því um árið 1.000.
Niðurstöður rannsókna á erfðaefni beinagrindanna hafa ekki verið birtar opinberlega. Jette Arneborg, yfirmaður rannsókna við danska þjóðminjasafnið, segir í samtali við vefinn Videnskab að það komi nokkuð á óvart að líkamsleifar í fjöldagröf við gamla kirkju sýni sterkari keltnesk einkenni en norræn.
Þrátt fyrir keltneskt ætternið velkjast fornleifafræðingarnir ekki í vafa um að íbúarnir hafi verið norrænir líkt og menning þeirra og lífshættir. Aðrar rannsóknir hafa einnig sýnt að færeyskar og íslenskar konur eiga ættir að rekja til Kelta.
Með rannsóknum á kolefni og köfnunarefni í tönnum einnar beinagrindanna frá Grænlandi var hægt að geta sér til um mataræði mannsins. Einnig hafa bein, fræ og forngripir úr bústöðunum verið rannsakaðir.
Dönsku fornleifafræðingarnir telja að norræna fólkið sem þarna bjó hafi farið að neyta sjávarfangs í stað þess að lifa fyrst og fremst á því sem húsdýr gáfu. Fólkið hafi því lagað sig að aðstæðum, borðað minna af landbúnaðarafurðum en þess meira af selkjöti.
Rannsóknin hófst árið 2005 og þá voru rannsakaðar um 900 rústir.