Svíar hræðast nú að eftirhermur hóti fjöldamorðum í stórum stíl í skólum landsins eftir að maður hótaði því á netinu að myrða nemendur í Konunglega tækniháskólanum í Stokkhólmi í Svíþjóð. Sá hefur verið handtekinn og játað verknaðinn.
Sérfræðingar tala um smitáhrif en hótun barst með tölvupósti í gær um að einstaklingur ætlaði að koma með vopn í Ludvigsborg-skólann í Västervik, "og skjóta alla sem koma illa fram við mig," eins og segir í frétt á vef sænska Aftonbladet. Þar sem sendandinn fannst ekki var ákveðið að loka skólanum.
Ungur fjórtán ára piltur mætti með dínamít í skóla í Ramsele. Lögreglan gerði það upptækt og ók honum heim. Annar sextán ára nemandi í Piteå viðurkenndi að hafa hótað að koma með vopn í skólann þar og enn einn hótaði, í netsamskiptum, að koma vopnaður í skóla í Borås og drepa þar nemendur.
Morðhótunin í Konunglega tækniháskólanum olli miklum óróa og fékk mikla athygli í Svíþjóð.