Finnskur prestur, sem skipti um kyn og snéri aftur til starfa sinna fyrir fjórum mánuðum, hefur ákveðið að segja af sér embætti. Að sögn finnskra fjölmiðla mun presturinn láta af störfum í apríl.
Presturinn heitir Marja-Sisko Aalto en hét áður Olli Aalto. Blaðið Etelae-Saimaa hefur á fréttavef sínum eftir Aalto, að henni finnist hún ekki hafa náð að byggja upp nauðsynlegt trúnaðartraust sem þurfi að ríkja og ekki heldur sjálfstraust.
Aalto, sem er 54 ára, er fyrsti presturinn í Finnlandi sem skiptir um kyn. Hún tilkynnti um áform sín í nóvember 2008 og fyrstu viðbrögð Voitto Huotari, biskups Finnlands, voru þau að Aalto gæti varla gegnt áfram embætti sínu í bænum Imatra.
Þetta vakti hörð viðbrögð og ásakanir um fordóma og nokkrir sögðu sig úr lútersku kirkjunni í Finnlandi. Þá sögðu samtök sem berjast fyrir réttindum transgender-fólks að það væri ólöglegt að reka prestinn fyrir að skipta um kyn.
Um 80% Finna eru í lútersku kirkjunni.