Vestrænir sendimenn gagnrýna gabbfrétt

Höfuðstöðvar sjónvarpsstöðvarinnar Imedi.
Höfuðstöðvar sjónvarpsstöðvarinnar Imedi. Reuters

Vestrænir sendimenn hafa bæst í hóp þeirra, sem gagnrýna harðlega gabbfrétt sjónvarpsstöðvar í Georgíu um helgina um að rússneski herinn hefði gert innrás í landið. Fréttin olli miklu uppnámi meðal almennings en stjórnarandstæðingar fullyrða að hún sé runnin undan rifjum stjórnar landsins. 

Í fréttinni var fullyrt, að forseti landsins, Mikheil Saakashvili, hefði verið myrtur og stjórnarandstaðan slegist í lið með innrásaröflunum. Áður en fréttin var send út á einkareknu georgísku sjónvarpsstöðinni Imedi var birt örstutt yfirlýsing þar sem fram kom að um eftirlíkingu mögulegra atburða væri að ræða. Fréttin sjálf virkaði hins vegar mjög raunveruleg, enda myndskreytt með myndum úr innrás rússneskra hersveita í Georgíu í ágúst 2008 og henni fylgdi engin viðvörun um að um gabb væri að ræða.

Sendiherrar Breta og Frakka í Georgíu fordæmdu sjónvarpsstöðina í dag. Sagði Denis Keefe, sendiherra Bretlands, að málið vekti efasemdir um ábyrga og sjálfstæða fjölmiðla í Georgíu. Eric Fournier, sendiherra Frakka, sagði að fréttin hefði verið flutt af algeru ábyrgðarleysi, einkum fullyrðingar um að tilteknir stjórnarandstæðingar hefðu gengið til liðs við innrásaröflin.

John Bass, sendiherra Bandaríkjanna í Georgíu, hefur áður gagnrýnt sjónvarpsstöðina, sem hefur náin tengsl við Saakashvili. Forsetinn virtist í fyrstu verja gabbfréttina en sagði í gær  að fréttin hefði verið marklaus og jafnvel skaðleg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka