Sérstakt sagnfræðingaráð í Dresden í Þýskalandi hefur sent frá sér skýrslu þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að 25 þúsund manns hafi látið lífið í loftárásum bandamanna á borgina í síðari heimsstyrjöld. Eru þetta mun færri en oft hefur verið fullyrt.
Sagnfræðingaráðið hefur hefur unnið að rannsóknum í fimm ár og birti í dag lokaskýrslu sína um eldhafið sem myndaðist þegar breskar og bandarískar sprengjuflugvélar gerðu loftárásir á borgina 13.-15. febrúar árið 1945.
Harðar deilur hafa verið áratugum saman um mannfallið í borginni. Hafa öfgahópar á hægri væng stjórnmála haldið því fram að allt að hálf milljón manna hafi látið lífið í árásunum en aðrir hafa sagt að um 20 þúsund manns hafi látist.
Ráðið fór yfir skjöl úr skjalasöfnum borgarinnar, kirkjugörðum og manntal og bar þau saman við frásagnir sjónarvotta og aðrar heimildir. Talan 25 þúsund er sú sama, og borgaryfirvöld birtu strax eftir að heimsstyrjöldinni lauk árið 1945.
Þá segir í skýrslunni, að mun færri flóttamenn, sem flúðu stríðsátökin á Austurvígstöðvunum, hafi látið lífið í sprengjuárásunum en til þessa hefur verið talið. Þá er því einnig vísað á bug, að lík margra fórnarlamba árásanna hafi aldrei fundist.
Þeir sem hafa gagnrýnt loftárásirnar á Dresden segja, að þær hafi verið óþarfar vegna þess að þýska ríkið var þegar komið að fótum fram. Þá hafi árásirnar beinst gegn óbreyttum borgurum en ekki hernaðarskotmörkum.