Obama hættir við ferð til Asíu

Barack Obama hefur ákveðið að hætta við ferð til Asíu.
Barack Obama hefur ákveðið að hætta við ferð til Asíu. LARRY DOWNING

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur ákveðið að hætta við ferð til Asíu. Ástæðan er sú að hann vill einbeita sér að því að koma frumvarpi um breytingar í heilbrigðismálum í gegnum þingið.

Gríðarleg pólitísk átök hafa staðið um heilbrigðisfrumvarp Obama. Andstæðingar frumvarpsins hafa efnt til mótmæla víða um land. Stuðningsmenn frumvarpsins hafa heldur ekki sparað sig og barist með oddi og egg fyrir frumvarpinu.

Verði frumvarpið samþykkt hefur það í för með sér mestu breytingar á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna í 50 ár. Frumvarpinu er m.a. ætlað að tryggja um 30 milljónum manna sem ekki hafa sjúkratryggingu aðgang að heilbrigðisþjónustu.

Obama hefur beitt sér í málinu af miklum krafti síðustu daga og vikur. Hann mætti m.a. í viðtal á Fox sjónvarpsstöðinni í vikunni og svaraði þar gagnrýni á frumvarpið, en sjónvarpsstöðin verður seint talin til helstu stuðningsmanna forsetans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert