Stjórnvöld í Þýskalandi telja koma til greina að Grikkir leiti á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með aðstoð ef staða landsins versnar. Þetta er hefur vefsíðan Euobserver eftir heimildarmanni í Brussel.
„Það er engin þörf fyrir aðgerðir núna strax. Grikkland hefur ekki beðið um aðstoð,“ er haft eftir þýskum embættismanni sem vinnur að málefnum Grikklands. „Ef til þess kemur að staðan í Grikklandi versnar þá er Þýskaland opið fyrir AGS-lausn,“ sagði heimildarmaðurinn í samtali við Euobserve.
Þrýst hefur verið á Þýskaland að koma Grikklandi til hjálpar en landið glímir núna við mikla efnahagserfiðleika. Mikil andstaða er hins vegar í Þýskalandi við að landið leggi Grikkjum til fjármuni. Í Grikklandi hefst eftirlaunaaldur fyrr en í mörgum öðrum löndum Evrópusambandsins og það hefur verið notað gegn þeim. Spurt er hvers vegna ríki Evrópusambandsins eigi að aðstoða Grikki svo að þeir geti komist fyrr á eftirlaun en aðrir Evrópubúar.